Myndbandakeppnin Siljan er haldin á hverju ári. Barnabókasetur Íslands stendur að verkefninu í samstarfi við Borgarbókasafnið og Reykjavík bókmenntaborg UNESCO. Siljan er opin nemendum í öllum skólum landsins en keppnin er styrkt af Mennta- og barnamálaráðuneytinu. Keppt er í tveimur flokkum, 5.-7. bekk og 8.-10. bekk og mega bæði einstaklingar eða hópar senda inn myndband hvort sem það er unnið í eða utan skólans.

Markmiðið er að auka áhuga barna og unglinga á bóklestri með því að beina sjónum þeirra að nýjum barnabókum og gera krakkana sjálfa að jákvæðum lestrarfyrirmyndum.

Þátttakendur búa til um 2 mínútna myndband með umfjöllun um barna- /unglingabók gefin út á íslensku síðustu tvö ár. Myndbandið er sett á netið (til dæmis Youtube) og slóðin send á barnabokasetur@unak.is – ásamt upplýsingum um nafn, bekk og skóla höfunda myndbandsins.

Vegleg verðlaun fyrir vinningsmyndbönd úr báðum flokkum.