Úrslit liggja fyrir í Siljunni 2018. Í eldri flokki sigruðu Agnes Inger Axelsdóttir, Ásdís María Hrafnsdóttir og Guðrún Lilja Pálsdóttir úr Kelduskóla með myndbandi um bókina Vertu ósýnilegur eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur. Dómefndin sagði: Gríðarlega áhrifamikið myndband. Flottar sjónrænar brellur og mikið lagt í alla vinnslu. Stelpurnar tóku við verðlaunum í morgun en með sigri sínum tryggðuþær Kelduskóla 100.000 króna bókaúttekt frá Barnabókasetri og Félagi íslenskra bókaútgefenda. Sjálfar fengu stelpurnar 25.000 krónur auk þess sem afmælisnefnd fullveldis Íslands færði þeim fallega bókargjöf. Á myndinni eru einnig Ásgeir Eyþórsson skólasafnskennari í Kelduskóla, Brynhildur Þórarinsdóttir frá Barnabókasetri og Guðmundína Arndís Haraldsdóttir íslenskukennari sem hvatti nemendur sína til þátttöku. Við þökkum öllum sem tóku þátt og Mennta- og menningarmálaráðuneytinu fyrir að styrkja keppnina.