Barnabókasetur stendur fyrir myndbandasamkeppni fyrir nemendur í 5.-10. bekk grunnskóla. Keppt er í tveimur flokkum, 5.-7. bekk og 8.-10. bekk.

Markmiðið er að hvetja börn og unglinga til að lesa og tjá sig um bækurnar sem þau lesa. Með því að gera lestur barna og unglinga sýnilegri og virkja hina ungu lesendur til jafningjafræðslu getum við fjölgað lestrarhestunum – fengið fleiri til að brokka af stað – og gert lestur að spennandi tómstundaiðju. Ekki veitir af!

Nemendur geta unnið einir eða í hópi. Fjalla skal um eina barna- eða unglingabók að eigin vali í hverju myndbandi. Bókin þarf að hafa komið út á íslensku á árunum 2014-2015.

Myndböndin skulu vera 2-3 mínútur að lengd. Vista skal myndböndin á netinu (til dæmis youtube.com) og senda slóðina og upplýsingar um höfunda til barnabokasetur@unak.is Skilafrestur rennur út 20. mars. Sjá nánar á barnabokasetur.is

Öll myndböndin verður því hægt að sjá á netinu. Valin myndbönd verða jafnframt tengd við einn fjölsóttasta vef landsins, gegnir.is þar sem þau munu koma að góðum notum þegar börn og unglingar leita sér að lesefni.

Verðlaun:
Fyrstu verðlaun: 25 þúsund krónur.
Önnur verðlaun: 15.000 krónur.
Þriðju verðlaun: 10.000 krónur.

Auk þess fær skólasafnið í skóla sigurvegarans 100 þúsund króna bókaúttekt frá Félagi íslenskra bókaútgefenda.

Við vonumst til að þið kynnið samkeppnina í skólanum og hvetjið nemendur til þátttöku. Við bendum á að kennurum er frjálst að nýta samkeppnina sem verkefni í skólanum. Góð þátttaka úr skólanum ykkar eykur líkurnar á að skólasafnið fyllist!

Hikið ekki við að hafa samband ef eitthvað er óljóst: barnabokasetur@unak.is

Siljan hlaut styrk úr Barnamenningarsjóði. Barnabókasetur er samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri, Amtsbókasafnsins og Minjasafnsins á Akureyri.
Umsjón með verkefninu er í höndum stjórnar Barnabókasetursins sem skipuð er Brynhildi Þórarinsdóttur, rithöfundi og dósent við Háskólann á Akureyri, Haraldi Þór Egilssyni safnstjóra Minjasafnsins á Akureyri og Hólmkeli Hreinssyni Amtsbókaverði.