Úrslit eru nú ráðin í Siljunni, myndbandasamkeppni Barnabókaseturs fyrir grunnskólanemendur. Þrenn verðlaun voru veitt í hvorum flokki, 5.-7. bekk og 8.-10. bekk. Aðalverðlaunin voru þó sem fyrr 100.000 króna bókaúttekt fyrir skólasöfn sigurvegaranna frá Félagi íslenskra bókaútgefenda. Í ár eru það Laugarnesskóli í Reykjavík og Brekkuskóli á Akureyri sem fylla skólasafnshillurnar með hjálp Siljusigurvegara.
Siljan var haldin í samvinnu við Borgarbókasafnið í Reykjavík og með styrk frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Nemendur sendu inn stutt myndbönd um barna- eða unglingabók að eigin vali, eina skilyrðið var að bókin hefði komið út á íslensku 2016-2018. Þriggja manna dómnefnd sá um að meta myndböndin.
Markmið Siljunnar er að auka áhuga nemenda á bóklestri og jafnframt að hvetja ungt fólk til að fylgjast með og kynna sér útgáfu barna- og ungmennabókmennta. Siljan virkjar unga lesendur til samvinnu og jafningjafræðslu á skapandi og skemmtilegan hátt. Nemendur lesa, túlka, semja, mynda, beita tæknibrellum og tónlist til að fanga anda bókarinnar sem þeir völdu – og smita um leið aðra krakka af löngun til að lesa.
Verðlaunahafar 2019:
Yngri flokkur:
1. sæti (25 þúsund og 100.000 kr. bókaúttekt fyrir skólasafnið):
Svala, Ástrós, Silja, Lilja, Daníel, Álfar, Alexander og Henor úr Laugarnesskóla.
2. sæti (15.000):
Arndís Sara, Arndís Inga og Dóra Kristín úr Þingeyjarskóla
3. sæti (10.000):
Agla, Aníta Erla og Ásta Lilja úr Laugarnesskóla.
Eldri flokkur:
1. sæti (25 þúsund og 100.000 kr. bókaúttekt fyrir skólasafnið):
Birgir, Ýmir, Hilma, Sigurður og Bjarni úr Brekkuskóla
2. sæti (15.000):
Bragi Halldór, Bjartur Tandri, Jónas Þórir, Maron Fannar og Árni Þorberg úr Grunnskóla Reyðarfjarðar
3. sæti (10.000):
Óskar Óðinn, Steinar Bragi og Jóhannes úr Oddeyrarskóla